Atferlismeðferð og ráð um uppeldi og þjálfun hunda

Lærðu á netinu um bestu aðferðirnar við uppeldi og þjálfun hunda til að ná góðri tengingu við hundinn þinn og leysa vandamál sem upp geta komið varðandi atferlið.

Um Sif dýralækni

Ég ákvað þegar ég var lítil að ég vildi verða dýralæknir þegar ég yrði stór. Ég lærði líffræði í háskóla Íslands og tók svo stefnuna til Danmerkur þar sem ég lærði dýralækningar við konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Á lokanámsárinu mínu fór ég sem skiptinemi til Bandaríkjanna, nánar tiltekið University of California sem staðsettur er í Davis, Kaliforníu. Þar komst ég í kynni við mjög háþróað sjúkrahús fyrir gæludýr og lærði mikið um skurðlækningar sérstaklega.

Eftir það flutti ég aftur til Íslands og hóf störf við smádýralækningar á höfuðborgarsvæðinu. Ég var ein af stofnendum Dýralæknamiðstöðvarinnar í Grafarholti sem opnaði í mai 2007. Vegna þess hvað ég hafði mikinn áhuga á atferlisfræði dýra ákvað ég að hefja nám í atferlisfræði við háskólann í Southampton í Englandi og útskrifaðist með diplómagráðu í atferlismeðferð gæludýra (Companion Animal Behaviour Counselling) eftir fjögurra ára nám. Markmið mitt er að hjálpa gæludýraeigendum til að koma í veg fyrir atferlisvandamál, taka á þeim vandmálum sem koma upp og kenna þeim meira um hvernig við getum átt árangursríkari samskipti við dýrin okkar til að öllum líði betur.